Saga BPW

BPW er alþjóðlegur félagsskapur og vinnur að því að þjálfa konur í leiðtogastarfi, vera brautryðjendur og vinna að jafnrétti.

Saga BPW

Konur um allan heim sameinast í að vinna að eftirtöldum markmiðum BPW

  • Að hvetja konur til ábyrgðar og aukinnar þátttöku á vinnumarkaðinum, á opinberum vettvangi, í sinni heimabyggð, í landsmálum og á alþjóðlegum vettvangi
  • Að hvetja konur á öllum aldri til að afla sér menntunar og starfsþjálfunar; jafnframt að hvetja konur til að nota þekkingu sína í þágu annarra jafnt og sína eigin
  • Að vinna að efnahags– og félagslegu jafnrétti kvenna sem og á sviði stjórnmála í öllum löndum heims
  • Að vinna að vináttutengslum milli kvenna á alþjóðlegum vettvangi og gagnkvæmum skilningi
  • Að jafna launamun kynjanna
Image

“Jafnrétti verður hvorki varanlegt né áhrifaríkt nema að undirstaða þess sé traustur og góður efnahagur”

Upphaf Kvennasamtakanna BPW og IFBPW

Kvennasamtökin Business and Professional Women eða BPW voru stofnuð í Bandaríkjunum árið 1919. Stofnandinn var dr. Lena Madesin Pillips. Dr. Pillips var lögfræðingur sem hóf starfsferil sinn árið 1917. Þegar hún var komin út á vinnumarkaðinn fann hún áþreifanlega fyrir því að konur voru þar bæði fáar og einangraðar. Hún ákvað því að koma á tengslaneti fyrir konur á vinnumarkaði sem væri m.a. vettvangur kvenna til að skapa samstöðu sín í milli. Konurnar tóku þessari hugmynd fagnandi og fljótlega voru komnir BPW klúbbar í öll fylki Bandaríkjanna. Árið 1930 voru alþjóðasamtök BPW stofnuð. Alþjóðasamtökin nefnast International Federation of Business and Professional Women – IFBPW. Eftir stofnun þeirra hafa starfsemi og lög allra BPW- klúbba í heiminum byggst á lögum alþjóðasamtakanna og því starfa BPW-klúbbar um allan heim á svipaðan hátt. Á þriggja ára fresti eru haldnar alþjóða ráðstefnur BPW og þar taka þátt forsetar allra BPW klúbba og samtaka í heiminum auk almennra félagskvenna. Á þessum ráðstefnum er kosið í stjórnir og nefndir IFBPW. Innan IFBPW er aðildarlöndum skipt upp í fimm svæði sem eru: Afríka,  Asía og Kyrrahafs- svæðið, Evrópa, Suður - Ameríka og spænskumælandi lönd Karíbahafsins og  Norður – Ameríka. 

Ísland tilheyrir Evrópusamtökunum. En Evrópusamtök BPW halda einnig ráðstefnu á þriggja ára fresti. Íslenskar félagskonur hafa mætt bæði á Evrópu og alþjóðaráðstefnur BPW víða um heim auk þess sem félagskonur hafa átt sæti í stjórn bæði alþjóða- og Evrópusamtakanna. Eigum við nú einn fulltrúa í stjórn Evrópusamtakanna.  Evrópusamtökin eru í mjög nánu samstarfi við UN Women.

Tilgangur

Megin tilgangur alþjóðasamtaka BPW er að efla og styrkja konur innbyrðis og að stuðla að samstöðu, tengslum og samvinnu kvenna í hverju landi fyrir sig og um allan heim. BPW ber auk þess að efla  fagmennsku og forystu fyrir konur á öllum stigum að styðja þær við að ná þeim markmiðum.

Alþjóðasamtök BPW

Alþjóðasambandið er virkt og kraftmikið á heimsmælikvarða. Samtökin hafa í gegnum tíðina haft áhrif á almenningsálit og löggjöf í mörgum löndum. Þau hafa víkkað sjóndeildarhring okkar og aukið hæfni. Þau hafa aukið réttindi okkar og tækifæri og þau hafa einnig aukið samskipti okkar innbyrðis og við samfélagið.  Samtökin njóta trausts og starfa sem ráðgefandi aðili fyrir ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna s.s. fyrir menntunar-, vísinda-, menningar- og iðnþróunar-stofnanir og einnig stjórn barnasjóðs Sameinuðu þjóðanna. Samtökin vinna náið með Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, alþjóðlegum launasamtökum, nefnd um mannréttindi og nefnd um stöðu kvenna svo og matvæla- og landbúnaðar-stofnuninni, Evrópuráðinu og fleiri sérnefndum. Í gegnum Evrópusamtökin eigum við aðild að European Women's Lobby sem eru regnhlífasamtök yfir 2700 ópólitísk kvennasamtök í Evrópu, þar eiga Evrópusamtökin einn fulltrúa í stjórn og einn áheyrnarfulltrúa.

BPW klúbbarnir eru ekki góðgerðarfélag en hafa engu að síður tekið að sér hin ýmsu verkefni varðandi góðgerðarmálefni. Þar má nefna byggingu sjúkrahúss í Mexico, sem nefnist Mexicó- fiwo og einnig hafa þeir tekið þátt í byggingu barnaskóla í Mexico. Einnig hafa Evrópusamtökin byggt heimavistaskóla fyrir heimilslausar ungar stúlkur í Moldavíu,

Ráðstefnur

Evrópuráðstefna BPW var haldin á Íslandi árið 2022. Árið 1997 hélt BPW klúbburinn Reykjavík Evrópu- ráðstefnuna hér á landi. Þátttakendur voru yfir 400 talsins víðs vegar að úr heiminum. Sú ráðstefna var fjölmennasta kvennaráðstefna sem haldin hafði verið á Íslandi fram að þeim tíma. Ráðstefnan styrkti samheldni íslenskra BPW- kvenna og efldi tengsl þeirra við BPW systur um allan heim. Ráðstefnan tókst í alla staði mjög vel og eru BPW- konur víðsvegar um heim enn að vitna til ráðstefnunnar á Íslandi árið 1997. 

BPW á Íslandi

BPW klúbburinn Reykjavík var stofnaður í ágúst 1979. Erlendar konur sem voru hér við vinnu eða höfðu sest hér að  kynntu hugmyndina fyrir  íslenskum konum. Mikil áhersla var lögð á að fyrsti forseti klúbbsins yrði íslensk kona. Fyrsti forseti BPW klúbbsins Reykjavík var Margrét Sölvadóttir. BPW klúbburinn Reykjavík hefur starfað óslitið síðan. Regluleg starfsemi klúbbsins er í stórum dráttum á þann veg að kvöldverðafundir eru haldnir einu sinni í mánuði þar sem fram fer hefðbundin dagskrá. Dagskrá funda hefst á skipun fundastjóra og fundaritara sem félagskonur skiptast á að sinna og er þáttur í að efla félagskonur . Síðan er framtakskynning þar sem félagskonur og gestir þeirra standa upp og segja frá sér og því sem þeim liggur á hjarta. Konurnar geta valið um að segja einungis nafn sitt eða að segja frá einhverju sem gerst hefur í lífi þeirra frá síðasta fundi eða bara að tala um það sem þær langar til að tala um. Að lokinni máltíð og framtakskynningu tekur fyrirlesari kvöldsins við og flytur erindi sitt og í lok fundar eru borin upp önnur mál. Fyrirlesarar eru á flestum fundum og fjalla þeir um málefni kvenna vítt og breytt og það sem brennur á. Einnig hafa verið haldnir þemafundir þar sem fundarkonum er skipt í litla vinnuhópa og þær vinna áfram með málefni fyrirlesara kvöldsins. Tvær ferðir eru einnig farnar á hverju ári, það er vorferð í maí og haustferð í október og þær ferðir koma þá í stað kvöldfunda þeirra mánaða.  Vorferðin er yfirleitt dagsferð og oftast óvissuferð en haustferðirnar hafa verið tveggja daga ferðir með dagskrá.

Konur sem áhuga hafa á að taka þátt í starfsemi BPW- klúbbsins geta komið á fund sem gestir félagskonu. Ef þær hafa áhuga á að ganga í klúbbinn í framhaldi af þeirri kynningu sem þær fá þar óska þær eftir inngöngu á þar til gerðu eyðublaði. Einnig er  hægt að sækja um inngöngu á heimsíðu klúbbsins.  Félagskonur samþykkja inngöngu nýrrar konu.  

Jafnlaunadagurinn kemur upphaflega frá  BPW „ the EQUAL PAY DAY“ og hefur  verið haldinn sl. 12 ár.

Við höldum upp á kvennafrídaginn ásamt því að vera með kertaljósafund í febrúar ár hvert til að minnast félagskvenna og þeirra baráttu um heim allan. 

BPW klúbburinn Reykjavík

© 2021 - 2023 Allur réttur áskilinn

bpw-2022_500white.png